HNALLÞÓRAN

Sigurrós Guðbjörg Björnsdóttir & Berglind Erna Tryggvadóttir

  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon

Hin íslenska hnallþóra er fyrirbæri sem kom fram á Íslandi á fyrri part tuttugustu aldarinnar. Hún var handverk, listhlutur sem stóð á miðju veisluborði hverrar húsmóður, krúnudjásn, sjónræn þjóðargersemi. Að bera glæsileikann á borð, fyrir vini og vandamenn jafnt á gleði og sorgartilefnum tengir fólk saman og sú athöfn að matreiða fyrir aðra og borða saman er skapandi ferli. Hnallþórur eru stórar og skreyttar tertur sem gjarnan voru skreyttar með niðursoðnum litríkum ávöxtum og algengt var að rjómanum eða kreminu hafi verið listilega sprautað á með sértilgerðum sprautum sem bjuggu til falleg mynstur.�
Hnattvæðingin hefur haft þau áhrif að framboð af uppskriftum og tegund matar hefur aukist til muna. Þetta hefur og gæti haldið áfram að hafa þau áhrif að sérkenni íslenskrar matargerðar víki fyrir öðrum matarhefðum. Með þessu verkefni viljum við minna á hnallþóruna, passa að hún gleymist ekki og rannsaka hverjir listamennirnir á bak við terturnar voru og eru kannski enn.


Sigurrós Guðbjörg Björnsdóttir og Berglind Erna Tryggvadóttir eru í rannsóknarleiðangri; þær dýfa sér ofan í sögu íslenskra matar- og baksturshefða og reyna að finna hnallþórunni nýtt hlutverk í síbreytilegu landslagi íslenskrar matarmenningar. Sýningin Hnallþóran er fyrsta kynning á rannsóknum þeirra, verkefni í vinnslu. Þar eru settar fram tilraunir á hnallþórunni sem listhlut, í tvívíðu og þrívíðu formi, jafnt því sem áhorfendur geta skoðað uppskriftir og fróðleik sem rannsóknarteymið hefur sánkað að sér.

Verkefnið er styrkt af Vestfjarðastofu.
-------------
Berglind Erna Tryggvadóttir útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2016. Á meðan á náminu stóð tók hún þátt í töluverðum fjölda samsýninga, eyddi hálfu ári í myndlistarnámi í Mexíkóborg og tók þátt í námskeiðum í listaháskólum víðsvegar um Evrópu, svo sem í Stokkhólmi og Eistlandi.

Síðastliðin tvö ár hefur Berglind verið virk í sýningarhaldi, tekið þátt í gjörningum annarra listamanna, sýningarstýrt sýningu í Kling og Bang í samstarfi við Daníel Björnsson, sett upp eina einkasýningu og fleiri viðburði með samstarfsmanni sínum Rúnari Erni Marinóssyni. Berglind er nýkomin frá Finnlandi þar sem hún eyddi tveimur mánuðum í gestavinnustofu í Mänttä. Eins og er er Berglind í masters-námi við Piet Zwart Institute í Rotterdam.

Í verkum sínum notar Berglind mat sem efnivið og snertipunkt ólíkra efna. Hún skoðar samskipti fólks, hvernig það kemur saman og hvað það er sem hefur áhrif á manneskjuna í hversdeginum.
-----------------------
Sigurrós Guðbjörg Björnsdóttir útskrifaðist með BA-gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands vorið 2017. Meðan á námi stóð var Sigurrós boðið til Finnlands í tveggja vika vinnustofu á vegum Cirrus Network. Sigurrós tók þátt í ýmsum samsýningum og námskeiðum meðan á náminu stóð og fór í starfsnám til Berlínar þar sem hún starfaði með myndlistarmanninum Anton Burdakov. Eftir útskrift fór Sigurrós í starfsnám til Rotterdam þar sem hún starfaði með hönnunarstúdíóinu Odd Matter Studio og ferðaðist meðal annars með þeim á hönnunarvikuna í Mílanó og á tískuhátíðina í Villa Noailles í suður Frakklandi þar sem hún átti stóran þátt í hönnun og uppsetningu þriggja sýninga. Undanfarið ár hefur Sigurrós einnig tekið þátt í ýmsum verkefnum í samstarfi við aðra hönnuði og listamenn.

Sigurrós vinnur í ýmsum miðlum, en þó aðallega þrívítt við gerð bæði skúlptúra og nytjahluta.
Verk hennar undanfarin misseri hafa fjallað um samband milli texta og hluta. Þar tengir hún saman fólk frá hinum ýmsu fögum og fær þau til þess að taka þátt, þeirra partur eru skrifin og hennar partur er gerð hlutanna í tenglum við textana sem myndast.

download-1.jpg